Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, fékk að vita af því í lok júlí að faðir hans Benedikt Sveinsson hefði verið á meðal þeirra sem vottuðu fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmdan barnaníðing, þegar honum var veitt uppreist æru í september á síðasta ári.
Þetta kom fram í viðtali Heimis Más Péturssonar við Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hún sagði að embættismenn ráðuneytisins hefðu greint henni frá því í lok júlí að faðir Bjarna væri á meðal umsagnaraðila Hjalta. Hún hefði talið rétt að láta forsætisráðherra vita af því.
Aðspurð hvernig hann brást við sagði Sigríður:
„Hann kom algjörlega af fjöllum. Auðvitað finnst okkur öllum þetta þungbært [...] en ég ætla ekki að fara að tjá mig fyrir hönd forsætisráðherra.“
Segir Hjalta hafa mætt með bréfið tilbúið til undirritunar
Vísir greindi frá því í dag að Benedikt, faðir Bjarna, hefði verið á meðal umsagnaraðila Hjalta en hann fékk uppreist æru í fyrra eins og áður segir. Árið 2004 var Hjalti dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir áralöng kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.
Benedikt vildi ekkert ræða málið þegar Vísir hafði samband við hann í morgun. Hann sagðist mögulega ætla að senda frá sér yfirlýsingu sem hann svo gerði á fimmta tímanum eftir að Vísir hafði greint frá því að hann væri á meðal umsagnaraðila.
Í yfirlýsingunni segir hann að Hjalti hafi mætt með bréf til sín í fyrra, tilbúið til undirritunar, sem Benedikt skrifaði undir.
„Hjalti Sigurjón Hauksson var um tíma tengdur kunningjafólki okkar hjóna frá skólaárum. Hann hefur í nokkur skipti leitað aðstoðar hjá mér, fyrst og fremst vegna fjárhagsmála eða í tengslum við atvinnuleit. Engin önnur tengsl hafa verið á milli okkar,“ segir Benedikt.
Samkvæmt heimildum Vísis gerir dómsmálaráðuneytið almennt engar athuganir á því hvort meðmælabréf, sem skilað er við umsókn um uppreist æru, hafi í raun og veru verið skrifuð af þeim sem skrifa undir bréfin.
Auk Benedikts veittu þeir Haraldur Þór Teitsson og Sveinn Eyjólfur Matthíasson Hjalta umsögn vegna umsóknar hans um uppreist æru.
