Körfubolti

LeBron James: Leyfi Trump forseta ekki að nota íþróttirnar til að sundra okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James ræddi málin við blaðamenn í gær.
LeBron James ræddi málin við blaðamenn í gær. Vísir/Getty
LeBron James gagnrýndi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þegar hann hitti blaðamenn í gær í tilefni þess að NBA-liðin eru að hefja lokaundirbúning sinn fyrir komandi keppnistímabil.

James sakaði forsetann um að nota íþróttirnar til að kljúfa bandarísku þjóðina. Kom þetta í framhaldi þess að Donald Trump gaf það út að NFL-liðin ættu að reka þá leikmenn sem standa ekki þegar bandaríski þjóðsöngurinn er spilaður fyrir leikina í ameríska fótboltanum.

NFL-deildin brást öll mjög harkalega við orðum forsetans og mikið var um allskonar mótmæli í kringum þjóðsönginn í leikjum helgarinnar. Sumir leikmenn fóru niður á hnén, aðrir tóku saman höndum og þrjú lið voru eftir inn í búningsklefa á meðan þjóðsöngurinn var spilaður.

LeBron James hrósaði samstöðu NFL-leikmannanna og fyrir að svara orðum forsetans á þennan hátt. „Það er fólkið sem stjórnar þessu landi,“ sagði LeBron James. BBC segir frá.

„Ég ætla ekki að leyfa einum einstaklingi, sama hver áhrifastaða hans er, að nota íþróttirnar til að sundra okkur,“ sagði James.

„Íþróttirnar eru svo stórkostlegar og það sem þær geta gert fyrir alla. Þá skiptir engu hvernig fólk er í laginu, hversu hávaxið það er, hversu þungt það er, af hvaða kynþætti það er , hverjar trúar það er eða hvað sem er. Íþróttirnar sameina fólk eins og ekkert annað,“ sagði James.

„Við vitum að þetta er besta land í heimi og hér eru menn frjálsir. Við glímum samt við vandamál eins og allir aðrir. Þegar við eigum við þessi vandamál þá megum við ekki gleyma því hversu frábærar manneskjur við getum verið. Það er fólkið sem stýrir þessu landi,“ sagði James.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×