Ólafur Örn Haraldsson lætur af störfum þjóðgarðsvarðar um næstu mánaðamót, en hann verður sjötugur á föstudaginn. Hann ætlar að nýta tímann sem gefst þegar hann er kominn á eftirlaun til að sinna störfum sem formaður Ferðafélags Íslands og að klífa fjöll. Við starfi hans tekur Einar Á. E Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, sem er ráðinn til eins árs.
Ólafur segist hlakka til eftirlaunaáranna en vissulega séu mörg verkefni fram undan hjá þjóðgarðinum.
„Við erum að stækka gestastofuna og við erum að vinna að gríðarlega mörgum verkefnum. Við erum að endurskoða stefnu þjóðgarðsins, fjölga salernum og rafvæða þinghelgina. Það er fullveldisfundur á Þingvöllum á næsta ári og auðvitað hefði verið gaman að halda áfram.“
Ólafur hefur starfað hjá þjóðgarðinum í sjö ár. Hann segist vera stoltastur af því að ná að taka á móti öllum þeim vaxandi fjölda gesta með sóma. „Við áttum nú í erfiðleikum fyrstu árin sem ég var þarna og vorum tekjulítil. En eftir að tekjur okkar jukust, meðal annars með gjaldtöku, þá höfum við algjörlega náð tökum á þessu,“ segir Ólafur.
Áskorun að takast á við aukinn fjölda ferðamanna
Jón Hákon Halldórsson skrifar
