Framtíð Barcelona í spænsku deildinni gæti verið í uppnámi lýsi Katalónía yfir sjálfstæði frá Spáni eins og samþykkt var í kosningum í Katalóníu um helgina.
Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, ræddi stöðuna við blaðamenn í gærkvöldi en svo gæti farið að stórlið Barcelona þyrfti að leita sér að nýrri deild til að spila í framtíðinni fari allt á versta veg í samskiptum Katalóníu og spænska ríkisins. Sky Sports sagði frá.
Barcelona vann 3-0 sigur á Las Palmas um helgina sem var spilaður á tómum velli eftir að spænska knattspyrnusambandið neitaði Barcelona um að fresta leiknum vegna ástandsins í Barcelona í kringum kosningarnar.
„Ef að Katalónía verður sjálfstætt ríki þá þurfa liðin héðan að ákveða í hvaða deild þau muni spila,“ sagði Josep Maria Bartomeu eftir stjórnarfund Barcelona í kvöld og hann bætti svo við.
„Við erum að fara í gegnum erfiðan og flókna tíma núna en með virðingu fyrir því sem gæti gerst í framtíðinni þá ætlum við að ræða þetta af yfirvegum og af visku,“ sagði Bartomeu.
Gerard Figueras, íþróttastjóri Katalóníu, talaði um það á dögunum að Barcelona gæti mögulega spilað í deild í öðru landi verði Katalónía sjálfstæð. Barcelona er eitt besta lið Evrópu og á hvergi heima nema í einni af bestu deildunum. Það koma því ekki margar til greina.
„Ef Katalónía verður sjálfstæð þá þurfa katalónsku liðin í spænsku deildinni, Barcelona, Espanyol og Girona, að ákveða hvar þau vilji spila. Hvort það verði í spænsku deildinni eða í nágrannaríkjum eins og Ítalíu, Frakklandi eða í ensku úrvalsdeildinni?,“ sagði Gerard Figueras.
