Erlent

Trump boðar slag við McCain

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og John McCain.
Donald Trump og John McCain. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi John McCain tóninn í dag og sagðist ætla að berjast á móti öldungadeildarþingmanninum og það yrði „ekki fallegt“. McCain, sem er fyrrverandi flugmaður, varði fimm og hálfu ári í fangabúðum í Víetnam og berst við heilaæxli svaraði um hæl: „Ég hef verið í erfiðari slögum“ og brosti.



Tilefni þessara ummæla er ræða McCain í Fíladelfíu í gær, þar sem hann meðal annars fordæmdi „falska þjóðernishyggju“. Ræðuna flutti hann þegar hann tók á móti frelsisorðu Stjórnarskrármiðstöðvar Bandaríkjanna fyrir þjónustu sína við land og þjóð.

Sjá einnig: McCain fordæmir „falska þjóðernishyggju“



Í þakkarræðu sinni fór hann hörðum orðum um þá pólitísku strauma sem hafa verið ríkjandi vestanhafs síðustu misseri. Augljóst þykir að gagnrýnin hafi beinst að Trump og stuðningsmönnum hans.

„Ég hef verið mjög svo almennilegur en á einhverjum tímapunkti mun ég berjast á móti og það verður ekki fallegt,“ sagði forsetinn í útvarpsviðtali í dag.

Trump og McCain hafa deilt um nokkuð skeið. Í kosningabaráttunni sagði Trump til dæmis að McCain væri ekki stríðshetja þar sem hann hefði verið handsamaður. Þá kom McCain í veg fyrir að repúblikönum tækist að fella niður sjúkratrygginga- og heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, sem gengur undir nafninu ObamaCare, þegar hann kaus gegn flokksbræðrum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×