Ylströndin í Nauthólsvík, sem opnuð var árið 2000, hefur notið mikilla vinsælda hjá borgarbúum og því ef til vill ekki úr vegi að kanna möguleiki á fleiri slíkum svæðum í borginni.
„Ég hef óskað eftir því við Orkuveituna að það fari fram skoðun á tveimur hugmyndum að nýjum ylströndum þar sem afgangsvatn sem þarf að skila í sjó sem er síðan heitt yrði notað. Þetta er annars vegar mjög lítil strönd við Skarfaklett, nálægt þeim stað þar sem skemmtiferðaskipin leggjast að. Það gæti orðið svona lítill yndisreitur og myndi mynda nýjan viðkomustað fyrir alls konar útivist,“ segir Dagur í samtali við Vísi sem segir þessa litlu strönd falinn gimstein í borgarlandinu.

Hinn staðurinn sem um ræðir er í Gufunesi.
„Þar er líka strönd þar sem gamla áburðarverksmiðjan var. Þar eru Baltasar Kormákur og RVK Studios að fara að opna kvikmyndatökuver og er að fara í tökur á Ófærð seinna í vetur. Í skipulagssamkeppni sem við héldum þar voru þeir sem voru með sigurtillöguna með svolítið djarfa hugmynd að sjóböðum, það er sundlaug í sjónum,“ segir Dagur og bætir við að þessi litla strönd kalli nánast á heitara vatn.
„Allavega fyrir þá sem vilja svamla og treysta sér ekki í úthafsölduna.“