Fremur umhleypingasamt verður fram á helgina, lægðirnar koma ein af annari, með allhvassan eða hvassan vind og einnig rignir duglega á köflum samfara þeim.
Þá varar Veðurstofa Íslands við vatnavöxtum í ám á Ströndum, norðanverðum Tröllaskaga og austur á Skjálfanda, þar með talið í Hvanneyrará á Siglufirði. Samkvæmt Veðurstofunni eru einnig auknar líkur á skriðuföllum á svæðinu.
Á milli lægðana muni þó lægja og létta til. Þá getur kólnað hratt og líkur á næturfrosti eru þónokkrar ef fer saman lítill vindur og bjartviðri. „Annars er fremur milt miðað við árstíma og finnst áreiðanlega mörgum undarlegt að það rigni í norðanáttum um miðjan október en bæði er sjórinn frekar hlýr og einnig draga lægðirnar með sé hlýindi langt norður í höf sem koma síðan til baka í norðlægu áttunum,“ segir veðurfræðingur hjá Veðurstofunni og bætir við að þó geti komið slydda og krapi á fjallvegi norðantil.
Hiti verður víða á bilinu 3 til 8 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Norðan 10-18 m/s NV-til á landinu, en NV-læg átt, 5-13 annars staðar. Rigning fyrir norðan og einnig SA-lands um morguninn, en úrkomulítið SV-lands. Hiti 5 til 10 stig að deginum, hlýjast syðst.
Á laugardag:
Vestan og norðvestan 8-18 m/s, hvassast við N-ströndina. Rigning eða slydda um landið norðanvert, en bjart með köflum sunnantil. Lægir og léttir til V-til seinnipartinn, en A-til um kvöldið. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Á sunnudag og mánudag:
Hæg breytileg átt, en lengst af V 5-10 við NA-ströndina. Bjart með köflum, en lítilsháttar skúrir eða slydduél vestan- og norðantil. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn, en líkur á næturfrosti, einkum inn til landsins.
Á þriðjudag:
Líkur á hæglætisveðri, víða bjartviðri og þurrt en fremur svalt.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir austanátt. Skýjað SA-til, en bjartviðri í öðrum landshlutum. Hiti breytist lítið.

