Skoðun

Jón og séra Jón

Katrín Fjeldsted skrifar
Áratugum saman hefur í ræðu og riti verið lýst eftir því að atkvæði landsmanna skuli vega jafnt, hvar á landinu sem þeir búa. Hið sama skuli gilda um Jón og séra Jón. Flestir þeir sem valdir voru á stjórnlagaþing í allsherjaratkvæðagreiðslu í nóvember 2010 til þess að endurskoða stjórnarskrá Íslands voru manna á meðal sagðir vera af höfuðborgarsvæðinu en ekki landsbyggðinni. Þetta var reyndar ekki rétt, heldur má segja að aðeins örfá okkar kalli sig Reykvíkinga. Við tókum sæti í stjórnlagaráði 2011 eftir fordæmalausa aðför að lýðræðislegri niðurstöðu eins og allir þekkja. Samhljóða niðurstaða stjórnlagaráðs var að í 39. grein um alþingiskosningar skyldi vera ný setning sem hljóðar svo: Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Efni greinarinnar var síðar sent kjósendum til samþykktar eða synjunar og hlaut yfirgnæfandi stuðning. Þetta er ein af þeim breytingum sem nauðsynlegt var að gera á stjórnarskrá okkar frá 1944, en hún byggir eins og allir vita á aldagamalli danskri stjórnarskrá sem ætíð stóð til að endurskoða. Jafnt vægi atkvæða, hvar sem við erum búsett, telst til grundvallarréttinda í lýðræðisríki og ekki er hægt að sætta sig við annað fyrirkomulag. Sumir hamra á því að núverandi stjórnarskrá sé bara ágæt og hafi ekki þarfnast endurskoðunar. Ég er ekki sammála því. Dæmið að ofan er bara eitt þeirra mála sem nauðsynlegt er að sett sé fram með skýrum hætti í stjórnarskrá.

Auðlindir landsins

Ákvæði um auðlindir landsins er annað dæmi. Almenningur á Íslandi hefur lýst sig sammála niðurstöðu stjórnlagaráðs en í 34. grein segir svo meðal annars: Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Hagsmunaöfl í þjóðfélaginu hafa hamast í ræðu og riti gegn þessu ákvæði, almenningi ekki til mikillar undrunar. Ákvæði af þessu tagi hafa þingmenn við fyrri tilraunir til að endurskoða stjórnarskrána ekki getað komið sér saman um.

Sveitarfélög

Þriðja dæmið sem ég vil nefna er um sveitarfélög. Stjórnlagaráð ákvað að mikilvægi þeirra kallaði á sérstakan kafla í stjórnarskrá en þar er meðal annars kveðið á um að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða, þau skuli hafa næga tekjustofna til að sinna lögbundnum verkefnum og að samráð skuli haft við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varða málefni þeirra. Þá er kveðið á um að með lögum skuli fjalla um rétt íbúa sveitarfélags til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess.

Þetta er enn eitt nýmælið. Það er tvímælalaust kominn tími til að kveða á um stöðu sveitarfélaga í stjórnarskrá.

Lokaorð

Við fögnum fullveldi Íslands 1. desember 2018 best með því að lúta vilja íslensks almennings sem studdi helstu niðurstöður stjórnlagaráðs. Ég skora á kjósendur að kynna sér hvaða afstöðu stjórnmálaöfl sem nú leita eftir atkvæðum til setu á Alþingi hafa og kjósa þau sem vilja nýja og lýðræðislega stjórnarskrá sem byggir á vel ígrunduðum tillögum stjórnlagaráðs.

 

Höfundur er læknir og fyrrverandi þingmaður Reykvíkinga.




Skoðun

Sjá meira


×