Samkvæmt nýrri framsetningu Veðurstofunnar er svokölluð „gul viðvörun“ í gildi á þremur landssvæðum í dag: Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra sem og miðhálendinu. Þar er gert ráð fyrir hvassviðri eða stormi, ekki síst á Vestfjörðum og miðhálendinu, þar sem hviður geta farið yfir 30 m/s við fjöll og á heiðum. Þá má jafnframt gera ráð fyrir slyddu eða snjókomu á miðhálendinu.
Það verður því hvöss suðvestanátt í dag, vætusamt en milt. Hægari vindur síðdegis og léttir til austanlands. Hiti 3 til 9 stig.
Norðanátt og kólnar talsvert á föstudag og laugardag. Snjókoma eða él norðan- og austanlands, en léttir smám saman til á Suður- og Vesturlandi.
Síðdegis á sunnudag er útlit fyrir suðaustan storm með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu sunnan- og vestantil á landinu.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Norðan 5-10 m/s og él, en úrkomulítið S-lands. Hiti 0 til 5 stig við S-ströndina, annars vægt frost. Norðan 8-15 og slydda eða snjókoma á N-landi undir kvöld.
Á laugardag:
Norðan 8-13 og él, en léttskýjað á S- og V-landi. Frost 0 til 5 stig.
Á sunnudag:
Hæg breytileg átt um morguninn, úkomulítið og talsvert frost. Gengur í suðaustan storm síðdegis og um kvöldið, með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, en úrkomulítið NA-lands. Hlýnandi veður.
Á mánudag:
Sunnanátt og skúrir eða él, en léttir víða til á N- og A-landi. Hiti nálægt frostmarki.
Á þriðjudag og miðvikudag:
A-læg átt og él, en þurrt NA-lands.
