Skoðun

Góðar fréttir

Auður Guðjónsdóttir skrifar
Í upphafi þessa árs lagði Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, til við Norrænu ráðherranefndina að fylgja eftir tilvísunum í taugakerfið í stefnuyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna áranna 2015-2030 og láta greina og samkeyra gagnabanka á norrænu taugavísindasviði með gervigreind. Markmiðið væri að leita að sameiginlegu mynstri í innihaldi bankanna sem hjálpað gæti læknavísindunum að skilja betur hvernig taugakerfið starfar og komast með því nær lækningu.

Tillögu Lilju var vel tekið hjá ráðherranefndinni og leitaði nefndin eftir áliti NordForsk sem fjármagnar og liðkar fyrir norrænu samstarfi á sviði rannsókna og rannsóknarinnviða. Álit framkvæmdastjóra NordForsk barst fyrir skömmu og þar kemur fram að stofnunin telji mjög mikilvægt að efla norrænt samstarf á sviði taugaskaða og sjúkdóma og með pólitísku átaki á því sviði ætti að vera hægt að hrinda umræddri tillögu tiltölulega fljótt í framkvæmd. Nú ríður á að íslenskir embættismenn, þingmenn og ráðherrar haldi málinu á lofti á norrænum vettvangi.

Ástæða þess að Lilja lagði fram tillöguna var að Ísland náði ofangreindri tilvísun í taugakerfið inn í stefnuyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna árið 2015 eftir mikla vinnu margra Íslendinga. Með því var hún að freista þess að afla stuðnings Norðurlandaþjóðanna við taugakerfið og festa það þar með í sessi hjá Sameinuðu þjóðunum sem eitt af þeim málum sem heimurinn þarf að taka á.

Eins og fólk veit gengur erfiðlega að finna lækningu við skemmdum í taugakerfinu þrátt fyrir að mikið sé rannsakað. Heimurinn er fullur af gömlum og nýjum rannsóknum sem þarf að skoða í stóra samhenginu. Þess vegna þarf að nálgast taugakerfið á breiðari grundvelli en verið hefur og nýta til þess hina nýju gervigreind. Vonandi bera Norðurlönd gæfu til að ríða á vaðið og stuðla þar með að stórstígum framförum á tauga­vísindasviði.

 

Höfundur er stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×