Rekstur Græna herbergisins var í höndum Friðriks Ómars Hjörleifssonar, Jógvans Hansen og Vignis Snæs Vigfússonar, en staðurinn var opnaður í júlí 2016. Ýmis starfsemi hefur verið í húsinu, sem stendur við Lækjargötu 6A, til að mynda kampavínsklúbburinn Strawberry's.
„Það var í raun og veru enginn rekstrargrundvöllur til staðar lengur,“ segir Friðrik Ómar í samtali við Vísi.
Há leiga á þátt í ákvörðuninni um lokun staðarins, en aðrir þættir spila einnig inn í. „Við vorum í raun bara að reka stað sem bauð bara upp á aðsókn um helgar og það bara dugði ekki til.“
Vonast til að opna á nýjum stað
Hann segir það aldrei vera auðvelt að reka tónleikastað. „Þeir hafa gjarnan verið reknir þannig að tónlistarfólk er sjálft að taka áhættuna. Í okkar rekstri vorum við að framleiða viðburði sjálfir og tókum því áhættuna um leið á okkur.“
Hann segir einnig að það sé vitaskuld hægt að reka svona staði og að dæmi séu fyrir því. „Kannski vorum við ekki réttu mennirnir í þetta,“ en Friðrik segir að hann og Jógvan vonist eftir því að opna Græna herbergið aftur seinna, þá í hentugra húsnæði.
Friðrik telur að fyrri starfsemi staðarins, þ.e.a.s. kampavínsklúbburinn Strawberry's, hafi ekki skaðað ímynd Græna herbergisins. „Við tókum hann alveg í gegn og kíttuðum upp í allar myndir á veggjum, þannig ekkert varð eftir. Ég hafði sjálfur aldrei komið þarna inn áður, enda er ég ekkert fyrir konur á súlum.
Staðurinn er ekki kominn í hendur nýrra eigenda en starfseminni hefur verið hætt.

Ólafur Örn Ólafsson og Kári Sturluson seldu nýlega veitinga- og tónleikastaðinn Rosenberg við Klapparstíg eins og Vísir greindi frá. Ólafur og Kári keyptu reksturinn í febrúar á þessu ári og opnaði staðurinn í nýrri mynd í apríl síðastliðnum.
Ólafur tilkynnti um söluna á Facebook síðu sinni í október síðastliðnum. Þar tekur hann fram að reksturinn hafi ekki gengið vel, en fór þó ekki út í ástæður sem liggja að baki ákvörðunarinnar. Staðurinn hafi verið seldur í hendur nýrra eigenda en ekki er komið í ljós hverjir þeir eru.
Kári Sturluson, annar fráfarandi eigenda, komst nýverið í fréttirnar fyrir aðkomu sína að miðasölu í tengslum við tónleikaröð Sigur Rósar í Hörpunni.
Fréttablaðið greindi frá því að Kári hefði þar fengið fyrirframgreiddar 35 milljónir króna af miðasölu tónleikanna hjá Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu. Ekki er vitað í hvað milljónunum 35 var ráðstafað, en það var fyrir víst gert án vitundar hljómsveitarinnar og ekki í tengslum við viðburðinn sjálfan.