Aðgerðin var framkvæmd á Santa Cruz-sjúkrahúsinu í höfuðborg Portúgal, Lissabon í gær.
Greint var frá því í september síðastliðnum að Sobral væri þungt haldinn eftir að honum var flýtt undir læknishendur. Þessi 27 ára gamli söngvari hafði glímt við hjartasjúkdóm en hann hafði beðið eftir hjartaígræðslu í nokkra mánuði.
„Hann var vel undirbúinn. Hann er ungur maður sem áttaði sig á þeim erfiðleikum sem myndu fylgja þessari aðgerð,“ er haft eftir skurðlækni hans á vef BBC sem segir að endurhæfingin muni taka þó nokkurn tíma.
Hann vann söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, fyrr í ár með laginu Amar Pelos Dios sem hann samdi ásamt systur sinni Luísa Sobral. Íslendingar hrifust einnig af systkinunum og fékk Portúgal 12 stig frá Íslandi.