Erlent

Svona er að stíga út í geiminn

Kjartan Kjartansson skrifar
Ef þig hefur langað til að stíga út í geim gefur myndband Bresnik góða hugmynd um hvernig útsýnið er.
Ef þig hefur langað til að stíga út í geim gefur myndband Bresnik góða hugmynd um hvernig útsýnið er. Randy Bresnik
Aðeins brotabrot af mannkyninu hefur nokkru sinni yfirgefið jörðina og haldið út í geim. Einn geimfaranna í Alþjóðlegu geimstöðinni hefur nú leyft fleirum að kynnast upplifuninni með myndbandi af útsýninu þegar hann stígur fyrst út í geimgöngu.

Myndbandið sem bandaríski geimfarinn Randy Bresnik deildi á Twitter í gær var tekið þegar hann og Joe Acaba fóru í geimgöngu á dögunum. Það sýnir þegar Bresnik klifrar fyrst út um lúgu geimstöðvarinnar þar sem fagurblá jörðin og kolsvartur geimurinn blasa við.

Bresnik deildi öðru myndbandi úr geimgöngu á Twitter á dögunum þar sem hann dáðist að fegurð jarðarinnar en hann hefur verið um borð í geimstöðinni frá því í júlí.

Geimstöðin er á braut um jörðu í rúmlega fjögur hundruð kílómetra hæð yfir yfirborði hennar. Hún flýgur á meira en sjö kílómetra hraða á sekúndu og tekur það hana um það bil eina og hálfa klukkustund að fara einn hring í kringum jörðina.

Myndskeið sem ítalski geimfarinn Paolo Nespoli tók af jörðinni og birt var á Youtube á föstudag sýnir hluta af einni hringferð þar sem geimstöðin flýgur yfir Kaliforníu og Mexíkó.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×