Erlent

Telja neikvæðar fréttir alltaf vera „falsfréttir“ þótt þær séu réttar

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt ætla að veita falsfréttaverðlaun í dag.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt ætla að veita falsfréttaverðlaun í dag. Vísir/Getty
Svo virðist sem að ítrekaðar árásir Donalds Trump Bandaríkjaforseta á trúverðugleika fjölmiðla hafi verulega áhrif á afstöðu stuðningsmanna hans. Ný könnun bendir til þess að 42% repúblikana telji að fréttir sem eru efnislega réttar séu alltaf „falsfréttir“ ef þær sýna stjórnmálamann eða samtök í neikvæðu ljósi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um áhrif svonefndra „falsfrétta“ á lýðræðið og kosningar í vestrænum ríkjum undanfarin tvö ár. Upphaflega var þá átt við upplognar eða misvísandi fréttir vafasamra vefsíðna sem var svo dreift um samfélagsmiðla.

Fljótlega eignaði Trump sér hugtakið en notaði það til að hafna öllum neikvæðum fréttum um sig, óháð sannleiksgildi þeirra.

Sá hugsunarháttur virðist hafa síast inn hjá repúblikönum í Bandaríkjunum ef marka má fyrrnefndar niðurstöður könnunar Gallup og Knight-sjóðsins. Til samanburðar voru 17% demókrata þeirrar skoðunar að neikvæð umfjöllun væri alltaf „falsfréttir“.

Svo langt hefur Trump gengið í að saka fjölmiðla um að flytja „falsfréttir“ að hann hefur boðað til sérstakra falsfréttaverðlauna sem hann hefur sagt að eigi að tilkynna um í dag. Þau eiga að falla í skaut þess fjölmiðils sem flytji helstu „falsfréttirnar“ að mati stuðningsmanna forsetans.

Hvíta húsið hefur hins vegar slegið úr og í um hvort að af verðlaunaafhendingunni verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×