Norska lögreglan telur sig vita hvernig Janne Jamtland lést. Talið er að lík hennar hafi fundist í gær. NRK greinir frá.
Mál Jemtland hefur vakið mikla athygli í Noregi en hennar var saknað frá 29. desember síðastliðnum. Blóð úr henni fannst á vegi í Brumunddal, um hundrað kílómetrum norður af höfuðborginni Ósló, í byrjun mánaðar og þá var eiginmaður Jemtland úrskurðaður í gæsluvarðhald á föstudaginn. Hann er grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana.
Lík af konu fannst í gær í ánni Glomma í Noregi og telur lögregla að líkið sé af Janne. Telur lögregla sterkar líkur vera á því að Janne hafi verið ráðin bani.
Síðast sást til hennar á lífi á heimili hennar í Veldre um klukkan 2 að nóttu, 29. desember. Hún og eiginmaður hennar höfðu þá verið í jólaveislu og tekið leigubíl heim. Það var eiginmaður hennar sem tilkynnti um hvarf hennar þann 30. desember.
