Erlent

Japanskur geimfari biðst afsökunar á „gervifréttum‟ um hæð sína

Kjartan Kjartansson skrifar
Jafnvel geimfarar eins og Kanai geta gerst sekur um einföld mistök eins og að mæla vitlaust.
Jafnvel geimfarar eins og Kanai geta gerst sekur um einföld mistök eins og að mæla vitlaust. Vísir/AFP
Í ljós hefur komið að japanska geimfaranum Norishige Kanai varð á í messunni þegar hann mældi hæð sína í Alþjóðlegu geimstöðinni á dögunum. Hann tísti upphaflega um að hann hefði „hækkað‟ um heila níu sentímetra en á daginn kom að aðeins hefði teygst úr honum um tvo sentímera. Hann hefur beðist afsökunar á „gervifréttunum‟.

Töluverða athygli vakti þegar Kanai sagði frá því að hann hefði stækkað svo mikið eftir komuna til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar fyrir þremur vikum. Hann hefði jafnvel áhyggjur af því að komast ekki í sæti sitt í geimferjunni sem á að flytja hann heim í sumar.

Þyngdarleysið í geimstöðinni teygir úr hrygg geimfara þannig að þeir lengjast um tvo til fimm sentímetra. Hækkunin sem Kanai greindi hins vegar frá var óvenjulega mikil.

Svo virðist hins vegar sem að Kanai hafi gert mistök þegar hann mældi sig. Í raun teygðist aðeins úr honum um tvo sentímetra, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Þessi rangmæling virðist hafa orðið að stórmáli svo ég verð að biðjast afsökunar á þessum hræðilegu gervifréttum,‟ tísti Kanai. Hann sagði þó ekki hvernig mistökin hefðu komið til.

Hann þarf í það minnsta ekki lengur að hafa áhyggjur af því að passa ekki inn í Soyuz-geimfarið þegar að heimferðinni kemur í júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×