Fundurinn hefst klukkan 17:15 og verður hann í beinni útsendingu á Vísi.
Upphaflega var greint frá því í fréttum Stöðvar 2 í lok janúar að ungur maður hefði kært manninn fyrir áralöng kynferðisbrot gegn sér þegar hann var barn.
Kæran barst lögreglunni í ágúst en rannsókn á málinu hófst ekki fyrr en um fimm mánuðum síðar. Hefur það mjög verið gagnrýnt hversu langur tími leið frá því kæra barst og þar til rannsókn hófst en vinnuveitandi mannsins, barnavernd Reykjavíkur, var ekki látin vita af kærunni fyrr en degi áður en hann var handtekinn.
Lögregla sendi frá sér yfirlýsingu nokkrum dögum síðar þar sem greint var frá því að Karl Steinar Valsson, sem mun taka við starfi Gríms Grímssonar sem yfirmaður miðlægrar rannsóknarlögreglu, muni fara fyrir tveimur hópum innan embættis lögreglu til að rannsaka meðferð málsins og vinna að frekari greiningu á þeim 170 málum sem enn bíða rannsóknar kynferðisbrotadeildar.