Kjartan Atli Kjartansson sagði stóru spurninguna fyrir þetta einvígi vera hvort Sigtryggur Arnar Björnsson verði með Tindastól eða ekki. Hann hefur verið mikið frá vegna meiðsla eftir áramót.
„Hann skiptir þetta lið hellings máli en þeir eru hinsvegar alveg færir um að klára dæmið þótt þeir missi hann út í einhverja leiki. Að vera inn og út í einhverri seríu er samt ekki gott. Það er tegundin af meiðslunum hjá honum og kannski verður það raunin, að hann spili einn leik en hvíli næsta,“ sagði Kristinn Friðriksson en Sigtryggur Arnar glímir við nárameiðsli.
„Ef eitthvað annað lið væri með þennan mann í leikstjórnendastöðunni þá mætti það ekki við því að missa hann. En af því að þeir eru með anna gæja þarna sem er alveg jafngóður og ekki síðri þá komast þeir í gegnum þetta,“ sagði Teitur Örlygsson.
„Auðvitað munu þeir sakna hans ef hann missir af þessu öllu. Það verður agalegt. Það er mikið álag í úrslitakeppninni með þrjá leiki á viku sem er ekki ofboðslega gott fyrir leikmenn með nárameiðsli,“ sagði Teitur.
„Þetta verður mjög erfið sería fyrir Stólana og Grindvíkingar munu alveg drena orkuna úr Stólunum í þessari seríu,“ sagði Kristinn.
Hér fyrir neðan má sjá Kjartan Atla Kjartansson, Teit Örlygsson og Kristinn Friðriksson fara yfir einvígið og leikmannaglímurnar inn á vellinum.
Þeir Teitur og Krisinn spá síðan hvernig einvígið fer í lokin á innslaginu.