Innlent

Föst í fimm tíma á þjóðveginum með ófríska konu í rútunni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Miklar raðir mynduðust eftir að þjóðveginum var lokað um klukkan fjögur í dag.
Miklar raðir mynduðust eftir að þjóðveginum var lokað um klukkan fjögur í dag. Mynd/Jóna Fanney Friðriksdóttir
Íslenskur fararstjóri sem var föst í rútu á þjóðvegi 1 í fimm klukkustundir segir að hún sé hissa á því hversu langan tíma það tók að rannsaka slysstaðinn. Eins og kom fram á Vísi í dag varð harður árekstur tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi, við Iðjuvelli rétt austan við Kirkjubæjarklaustur um fjögurleytið í dag. Veginum var lokað í báðar áttir og var engin hjáleið.

„Ég er hér með fulla rútu af fólki. Við komum hérna um fjögurleytið, við lögðum af stað frá Jökulsárlóni um hálf fjögur og vorum búin að keyra í svona tuttugu mínútur eða hálftíma,“ segir Jóna Fanney Friðriksdóttir í samtali við Vísi klukkan rúmlega níu í kvöld. Bílaraðirnar sem hafa myndast báðum megin við lokanirnar síðustu klukkustundir eru margir kílómetrar að lengd.

„Það er fullt af rútum hérna þannig að það eru hundruð ferðamanna hér auk einkabíla, bæði ferðamenn og Íslendingar. Við sjáum ekki hversu langt röðin nær.“

Stóð ekki á sama

Búið er að opna þjóðveginn á ný samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni en umferðinni er stýrt af lögreglu til að hægt sé að greiða úr þeirri biðröð sem hefur myndast. Var vegurinn opnaður á níunda tímanum í kvöld. Þegar blaðamaður talaði við Jónu Fanney voru bílar byrjaðir að streyma á móti þeim en þeirra röð var enn stopp.

„Ég talaði við lögregluna áðan því ég er með ófríska konu í bílnum, mér var ekki alveg sama því það var verið að loka veitingahúsum og svona.“

Líðan ófrísku konunnar er góð en Jóna Fanney var tilbúin að óska eftir aðstoð lögreglu við að flytja hana ef þyrfti. Hún segir að farþegarnir séu nú svangir og þyrstir. Finnst þeim mjög óþægilegt að hafa ekki fengið upplýsingar síðustu klukkustundir og viti ekki enn hvenær rútan geti haldið af stað aftur.

Ferðamönnum þótti óþægilegt að fá ekki upplýsingar um stöðu mála á Suðurlandsvegi í dag.Mynd/Jóna Fanney Friðriksdóttir

Ætla að halda staðnum opnum

„Þau eru svo yndisleg á Vík á Ice Cave Bistro að þau ætla að bíða eftir okkur. Við eigum eftir klukkutíma í Vík og ég er búin að vera í miklu sambandi við þau, þau eru bara alveg yndisleg. Þau ætla að bíða eftir okkur og hafa mat.“

Í rútunni hjá Jónu Fanney eru um fimmtíu ferðamenn auk bílstjóra. Hún segir að farþegarnir hafi klappað þegar þau fengu að vita að veitingastaður ætlaði að hafa opið áfram svo allir gætu fengið næringu og vatn.

„Líðan þeirra er góð og fólk er búið að sofa mikið. Ég er með eina ófríska og búin að fylgjast vel með henni. Fólk er alveg óvenjulega jákvætt hérna hjá mér.“

Einn ökumaður var í öðrum bílnum en tveir aðilar í hinum. Allir þrír farþegarnir voru fluttir til Reykjavíkur í einni þyrlu frá Landhelgisgæslunni. Hún lenti um klukkan sjö í kvöld í Reykjavík. 

„Ég hef fulla samúð með þessum slösuðu og aðstandendum þeirra og er ekkert mál að bíða. En hinir slösuðu fóru á milli fimm og sex, það hefur tekið svona langan tíma að rannsaka slysið. Mér finnst að við þurfum að fara að hysja aðeins upp um okkur í þessum vegamálum, þetta er hneyksli,“ segir Jóna Fanney.

Strax í dag lá fyrir að vegurinn yrði lokaður í einhvern tíma á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig, bæði við björgun slasaðra og við rannsókn atvika.



Myrkrið skapar hættu

Jóna Fanney segir að frá því hinir slösuðu voru fluttir á brott í þyrlunni hafi fólk ekki fengið miklar upplýsingar frá lögreglunni.

„Fólk hefur setið hér í fimm klukkustundir án þess að fá vott né þurt og engar upplýsingar heldur. En auðvitað skildu allir allt fyrstu klukkustundirnar en eru orðnir þreyttir núna eftir allan þennan tíma. Við horfðum á þyrluna fara en síðan hefur ekkert frést. Skiljanlega þarf að rannsaka en þetta tekur svo langan tíma.“

Ekki liggja fyrir upplýsingar um meiðsl þeirra sem slösuðust en þeir voru allir með meðvitund samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi. 

„Ég ræddi við viðbragðsaðila hér áðan og hann sagði að þeir væru eiginlega að búa til meiri hættu með þessu því nú er komið myrkur og allur þessi fjöldi bíla, kílómetra eftir kílómetra. Þetta skapar meiri hættu, það á eftir að leysa úr þessum hnút. Þeir eiga samt örugglega eftir að leysa vel úr þessu og leiða umferðina.“

Uppfært 22:30 

Hópurinn er kominn er kominn á Vík og líður öllum vel. Jóna Fanney segir að ferðamennirnir séu þreyttir og þvældir en ánægðir með móttökurnar. Nú bíður þeirra tveggja tíma akstur til Reykjavíkur.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég vona að það séu ekki norðurljós á leiðinni, svo við þurfum nú ekki að stoppa fyrir það líka,“ segir Jóna Fanney kát að lokum.


Tengdar fréttir

Þjóðvegur 1 opnaður fyrir umferð á ný

Opnað verður fyrir umferð um Suðurlandsveg á næstu mínútum en loka þurfti veginum síðdegis eftir árektur tveggja bíla. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurlandi verður umferð stýrt til að greiða úr þeirri biðröð sem hefur myndast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×