Innlent

Örfáir tugir bílastæða lausir á langtímastæðinu við Leifsstöð

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Líklegt er að langtímastæði við Leifsstöð fyllist í dag
Líklegt er að langtímastæði við Leifsstöð fyllist í dag FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Líklegt er að langtímastæði við Leifsstöð fyllist í dag líkt og kom fram á Vísi í morgun. Eru ferðalangar hvattir til að nýta sér aðra samgöngumáta á flugvöllinn. Upplýsingafulltrúi ISAVIA segir ekki útilokað að ferðamet Íslandinga um páskana verði slegið í ár.

Leiðir landsmanna liggja til allra átta um páskahátíðina og virðist sem fjölmargir hyggi á afslöppun á erlendri grund. Hins vegar er mikilvægt að huga vel að skipulagi ferðarinnar, a.m.k. hlutanum frá heimili og að flugvellinum. Þannig segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, ekki sérlega æskilegt að mæta á einkabílnum.

„Núna fyrir hádegi voru aðeins örfáir tugir bílastæða lausir á langtímastæðinu. Við gerum eiginlega ráð fyrir því að langtímabílastæðin verði orðin yfirfull seinna í dag,“ segir Guðjón.

Við Leifsstöð eru um 2 þúsund langtímastæði. Guðjón bendir á að sambærileg staða hafi komið upp í fyrra, þar sem stæðin urðu yfirfull – og mikið kapp því verið lagt á að hvetja fólk til að nýta sér aðra samgöngukosti.

„Þess vegna bentum við á nýja bókunarsvæðið á vef ISAVIA þar sem hægt er að bóka stæði fyrirfram og fólk hefur verið að nýta sér það. Við hvöttum fólk til að tryggja sér þannig stæði og þannig á betri kjörum en við hliðið,“ segir Guðjón.

Á vef Túrista.is er bent á að yfir 60 þúsund Íslendingar hafi farið ytra í páskamánuðinum í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu, eða um 20 þúsund fleiri en árið áður. Þá er því velt upp hvort metið gæti fallið í ár. Guðjón segir það ekki útilokað.

„Fólk finnur fyrir því að töluverður fjöldi er að fara, svipað og var að gerast í fyrra. Við bíðum bara eftir að sjá tölurnar fyrir þetta tímabil og sjáum þá hvort metið síðan í fyrra sé fallið,“ segir Guðjón að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×