Skólinn hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár og er starfsemin að mestu leyti fjármögnuð með styrkjum frá Ísafjarðarbæ, Uppbyggingasjóði Vestfjarða, jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Vinnumálastofnun og fleiri sveitarfélögum, ráðuneytum og fyrirtækjum.
Runólfur Ágústsson, stjórnarmaður hjá lýðháskólanum segir sérstöðu skólans liggja í því að nemendur þurfa ekki að þreyta próf. Námið verður einn skólavetur, eða tvær annir.
„Við munum bjóða upp á spennandi og áhugaverða menntun sem fólk sækir sér menntunarinnar vegna. Í þessum skóla verða engin próf, engar gráður og engar einkunnir,“ segir Runólfur. Hann telur mikla eftirspurn eftir slíku námi á Íslandi.
„Það eru núna í vetur á annað hundrað Íslendingar til að mynda sem stunda slíkt nám í Danmörku og við teljum að þetta sé tímabær valkostur í íslensku menntakerfi,“ segir Runólfur.
Markhópurinn er tvískiptur
Runólfur segir að markhópur skólans sé í raun tvískiptur.„Annars vegar fólk sem er nýlega útskrifað úr framhaldsskóla og svona vill aðeins fá tíma til að átta sig á sjálfum sér og lífinu og hvert það vill stefna. Hins vegar fólk sem hefur fallið úr framhaldsskóla og er kannski síðar, 25, 30 ára að leita að leiðum inn í nám aftur að þá er þetta kjörin vettvangur til þess. Við erum að horfa til þess að taka á bilinu 20 til 35 nemendur,“ segir Runólfur.