„Starfsemi smálánafyrirtækjanna felst í því að lána fé til skamms tíma og eru vextir gríðarháir. Þannig geta nafnvextir á ársgrundvelli numið hundruðum prósenta. Samkvæmt gildandi lögum er slík vaxtataka ólögleg en farið er í kringum það með því að kalla vextina lántökukostnað, og ýmsum öðrum yfirdrepsskap er beitt til að hækka endurgjaldið fyrir lánveitinguna umfram það sem heimilt er,“ sagði Bjarkey.
Ennfremur rifjaði hún upp nýlegar upplýsingar frá Umboðsmanni skuldara sem benda til þess að smálán séu nú ein helsta orsök þess að ungt fólk lendi í skuldavandræðum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Iðnaðar, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, sagði að innan hennar ráðuneytis væri þegar byrjað að skoða starfsemi smálánafyrirtækja og til stæði að skipa starfshóp sem ætlað væri að koma með lausnir í málaflokknum.
„Það er mín skoðun út frá sjónarmiðum um neytendavernd að núverandi staða mála þegar kemur að regluverki smálánafyrirtækja sé ekki eins og best verður á kosið og ástæða sé til að taka þau mál til nánari skoðunar,“ sagði ráðherrann og vék að þáttum er varða úrbætur á kerfinu. “Varðandi hvað sé hægt að gera í úrbótaskyni af hálfu löggjafans þá eru þar ýmsar leiðir sem mögulega koma til greina, m.a. að gera starfsemina leyfisskylda, skilgreina smálánafyrirtæki sem fjármálafyrirtæki og færa þau þannig undir Fjármálaeftirlitið, gera auknar kröfur um upplýsingaskyldu og ýmislegt fleira.“
Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Fréttina má sjá hér að neðan.