Veðurstofan varar við hvassviðri undir Vatnajökli í kvöld en það mun hvessa töluvert á Suðausturlandi eftir því sem líður á daginn. Af þeim sökum er gul viðvörun í gildi fyrir suðausturhornið í kvöld og nótt, meðalvindhraðinn verður á bilinu 13 til 23 m/s og verður hvassast austan Öræfa þar sem vindhviður geta farið yfir 35 m/s. Ökumenn á Suðausturlandi eru því beðnir um að fara varlega.
Annars staðar á landinu ríkir hins vegar „ákveðin og svöl“ norðanátt með éljagangi eða snjókomu á Norður- og Austurlandi, en annars er yfirleitt léttskýjað fyrir sunnan og vestan. Frostið verður á bilinu 0 til 7 stig og verður kaldast í innsveitum á Norðurlandi. Hitinn getur þó farið yfir frostmark og jafnvel náð 5 stigum syðra að deginum.
Gert er ráð fyrir hægari norðanátt á morgun og él fyrir norðan og austan. Útlit fyrir fremur hæga vinda og víða bjartviðri og kalt framan af helginni, en vaxandi suðaustanátt á sunnudag, þykknar upp og hlýnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Norðlæg átt, 8-13 m/s, en lægir síðdegis. Dálítil él á víð og dreif, en lengst af bjartviðri á S- og V-landi. Líkur á snjókomu vestast á Breiðafirði og Vestfjörðum seint um kvöldið. Hiti kringum frostmark, en upp í 6 stiga hiti með S- ströndinni að deginum.
Á föstudag:
Hægir vindar og víða léttskskýjað, en lítilsháttar él NV-til. Hiti við frostmark að deginum.
Á laugardag:
Breytileg eða norðaustlæg átt og skýjað með köflum, en dálítil él fyrir norðan og austan. Frostlaust syðst yfir hádaginn, en annars vægt frost.
Á sunnudag:
Vaxandi suðaustanátt, þykknar upp og hlýnar, slydda eða rigning syðst um kvöldið.
Á mánudag og þriðjudag:
Útlit fyrir austanhvassviðri með rigningu, en lengst af þurrviðri nyrðra. Milt veður.

