
Aðspurð segir hún ljósmæður ekki stefna á að endurskoða kröfur sínar að neinu ráði.
„Við erum náttúrulega alltaf að spá í hvað við getum gert, hvort það sé eitthvað hægt að gera. Við leggjumst bara yfir það en ég reikna ekki með að það verði miklar breytingar af okkar hálfu,“ segir Áslaug.
„Okkur finnst eðlilegt útspil að samninganefndin komi með eitthvað til þess að vinna með.“
Áslaug sagði í samtali við Vísi fyrir fundinn í dag að engar breytingar hafi verið gerðar á kröfum ljósmæðra frá síðasta fundi, sem haldinn var þann 3. apríl, og að ekki yrði dregið úr þeim á fundi dagsins.
Næsti fundur samninganefnda í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins verður haldinn að tíu dögum liðnum, fimmtudaginn 26. apríl.