Fótbolti

Stemmningin var svo svakaleg í Róm í gærkvöldi að forseti Roma gerði þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniele De Rossi og Federico Fazio fagna sigri í gærkvöldi.
Daniele De Rossi og Federico Fazio fagna sigri í gærkvöldi. Vísir/Getty
Á kvöldi þegar flestir knattspyrnaáhugamenn voru að pæla í því hvort Manchester City tækist að vinna upp þriggja marka forskot Liverpool þá voru endurkomudísirnar að hjálpa öðru félagi að vinna upp þriggja marka forskot mun sunnar í álfunni.

Ítalska félagið AS Roma gerði nánast hið ómögulega í gærkvöldi þegar liðið sló stórlið Barcelona út úr Meistardeildinni. AS Roma komst þar með í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn síðan 1984 en þá hét keppnin reyndar Evrópukeppni meistaraliða.

Barcelona kom með 4-1 forskot úr fyrri leiknum á Spáni en Roma vann leikinn 3-0 og komst áfram á fleirum mörkum skoruðum á útivelli.

Það var magnað að sjá leikmenn, þjálfara, starfsmenn og stuðningsfólk Rómarliðsins gjörsamlega missa sig í leikslok og það leyndist ekki að þarna var félagið að afreka nánast hið ómögulega.

Það er eitt að dragast á móti Barelona í Meistaradeildinni en það er annað að þurfa að vinna upp þriggja marka forskot á móti Lionel Messi og félögum. Sigurinn var því afar sætur.

Stemmningin var líka svo svakaleg í Rómarborg í gærkvöldi og nótt að forseti Roma var einn af þeim sem gjörsamlaga misstu sig.

Bandaríkjamaðurinn James Pallotta er forseti félagsins og hann lét sig bara vaða í gosbrunninn Piazza del Popolo í sigurgleðinni.

Ítalski blaðamaðurinn Tancredi Palmeri, sem vinnur nú hjá CNN en var áður hjá Gazzetta dello Sport, birti myndband af því Twitter þegar James Pallotta lét sig vaða í brunninn eins og sjá má hér fyrir neðan.





Stuðningsfólk Rómarliðsins var mjög ánægt með uppátæki James Pallotta eins og heyra má líka í þessu myndbandi hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×