Innlent

Páll Óskar hafnaði fundi með sendiherra Ísraels

Birgir Olgeirsson skrifar
Rapheal Schutz, sendiherra Ísrael gagnvart Íslandi.
Rapheal Schutz, sendiherra Ísrael gagnvart Íslandi. Vísir/Vilhelm
Raphael Schutz, sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi, telur orðspor Ísraels eiga undir högg að sækja á Íslandi. Hann boðaði til blaðamannafundar fyrr í dag þar sem hann reyndi að útskýra hlið Ísraels í átökum tengdum Gaza-svæðinu og nýju sendiráði Bandaríkjanna í Jerúsalem.

Ísrael vann Eurovision eftirminnilega fyrr í mánuðinum og ljóst að keppnin verður haldin þar í landi á næsta ári. Schutz sagði Ísraelsmenn ekki hafa tekið endanlega ákvörðun hvort keppnin verður haldin í Jerúsalem eða Tel Avív. Hann sagði hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að keppnina verði í Jerúsalem, enda hafi hún verið haldin með góðum árangri þar í borg tvisvar áður.

Minntist hann sérstaklega á góðan árangur Selmu Björnsdóttur þegar hún hafnaði í öðru sæti í keppninni þegar hún var haldin í Jerúsalem árið 1999.

Páll Óskar Hjálmtýsson, sem keppt hefur fyrir hönd Íslands í Eurovision og er mikill fræðingur um keppnina, lýsti því yfir fyrr í mánuðinum að Íslendingar ættu að sniðganga keppnina í Ísrael á næsta ári og mótmæla þannig „fjöldamorðum Ísraelshers á Palestínu og setja mörk á alþjóðavísu.“

Schutz sagði á blaðamannafundinum fyrr í dag að hann hefði boðið Páli Óskari til viðræðna til að lýsa sínum sjónarmiðum og leyfa Páli Óskari að heyra hlið Ísraels í þessu máli en sagði Pál hafa hafnað boði hans.

Sagðist hann vonast til þess að Íslendingar muni taka þátt í keppninni á næsta ári.

Nánar verður fjallað um efni fundarins og rætt frekar við Schutz í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×