Lögreglan á Austurlandi hvetur íbúa á svæðinu til að læsa húsum sínum og vera á varðbergi vegna fjölda innbrota undanfarið. Tveir menn voru handteknir í fyrradag vegna gruns um að þeir hafi stundað skipulögð innbrot og þjófnað á nokkrum stöðum á landinu að undanförnu.
Aðdragandi handtökunnar var sá að að þegar íbúi á Fáskrúðsfirði kom að innbrotsþjófi á heimili sínu í gær, kýldi þjófurinn húsráðanda í magann og komst undan á hlaupum. Hann fór upp í bíl sem ók á brott á ofsahraða.
Lögreglan veitti honum eftirför, en brátt var ákveðið að senda lögreglubíl frá Egilsstöðum til að gera bílnum fyrirsát í grennd við Breiðdalsvík. Þar hafnaði bíllinn utan vegar og reyndust þá tveir menn vera í honum og voru þeir báðir handteknir og vistaðir í fangageymslum.
Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði mennina í tveggja vikna gæsluvarðhald, annar aðilinn unir því en hinn hefur ákveðið að kæra niðurstöðuna til Landsréttar.
Þá hefur lögreglan einnig upplýst fjölda innbrota í sumarbústaði á Einarsstaðasvæðinu um síðustu helgi en þau mál tengjast ekki aðilunum sem handteknir voru við Breiðdalsvík.
Í færslu á vef lögreglunnar á Austurlandi segir að nágrannavarsla skiptir miklu máli og hvetur lögreglan fólk sem hyggur á ferðalög að gera ráðstafanir og biðja nágranna sína til að fylgjast með húsum þeirra.

