Samkvæmt upplýsingum frá rannsóknardeild Tollgæslunnar er hluti fíknilyfjanna sem um ræðir fluttur af íslenskum ferðamönnum hingað til lands frá Alicante á Spáni og margir framvísa lyfjaávísun frá þarlendum læknum.
Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að slóðin hafi verið rakin til fáeinna lækna á Spáni og að einn læknanna sem um ræðir starfi á læknastofu á Benidorm. Hann sé stórtækur og hafi ávísað lífshættulegum og stórum skömmtum til Íslendinga sem eiga sér ekki heilsufarssögu sem rökstyður að nauðsynlegt sé að nota slík lyf.
Fréttablaðið greindi í vikunni frá Íslendingum sem leystu út erlendar lyfjaávísanir á Íslandi.

Þeim Íslendingum, sem hafa fengið uppáskrifuð lyf frá læknum á Spáni og flutt þau til landsins, er í raun heimilt að flytja til landsins lyf til eigin nota ef þeir framvísa vottorði læknis eða lyfseðli en þeir þurfa líka að sýna fram á að lyfin séu nauðsynleg í því magni sem flutt er inn. Í flokka ávana- og fíknilyfja er leyfilegt að flytja með sér magn sem svarar mest til 30 daga notkunar.
Reglugerðir í Noregi voru svipaðar og hér á landi. Þær voru hertar árið 2016 vegna stóraukins flutnings ávanabindandi fíknilyfja til landsins sem síðan voru seld á svörtum markaði.
Í dag mega ferðamenn með norskt ríkisfang einungis flytja með sér sjö daga skammt af ávana- og fíknilyfjum sem keypt eru erlendis, en 30 daga skammt ef viðkomandi er með vottorð frá norskum lækni.