Vinstri bakvörðurinn öflugi, Marcelo, verður ekki með Brasilíu þegar liðið mætir Mexíkó í 16-liða úrslitum á HM í Rússlandi í dag.
Marcelo þurfti að fara af velli í sigri á Serbíu í lokaleik riðlakeppninnar vegna meiðsla í baki.
Felipe Luis, leikmaður Atletico Madrid, kom inná fyrir Marcelo og hann mun hefja leik í vinstri bakverðinum í dag en Tite, þjálfari Brasilíu, staðfesti byrjunarliðið á blaðamannafundi fyrir leikinn.
Takist Brasilíu að komast áfram má reikna með að Marcelo muni taka frekari þátt í mótinu þar sem meiðsli hans eru ekki sögð alvarleg og hefur hann æft með liðinu síðustu daga.
Leikur Brasilíu og Mexíkó hefst klukkan 14:00.
