Fótbolti

Leikmenn í spænsku deildinni gætu farið í verkfall

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sergio Ramos mætti á fundinn.
Sergio Ramos mætti á fundinn. vísir/getty
Leikmenn í 1. deil spænska fótboltans útiloka ekki að fara í verkfall til að mómæla ákvörðun spænsku deildarinnar að spila leiki í Bandaríkjunum á næstu árum. BBC greinir frá.

La Liga gerði á dögunum fimmtán ára langan samning við bandaríska fjölmiðlafyrirtækið Relevant en eitt af því sem Bandaríkjamennirnir vilja er að leikir í deildinni fari fram vestanhafs.

Leikmannasamtökin eru brjáluð vegna þess að ekki var haft samband við þau en fyrirliðar liðanna í deildinni hittust í Madríd í gær og ræddu við David Aganzo sem er yfir leikmannasamtökunum.

Á meðal þeirra sem mættu voru Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid ásamt liðsfélaga sínum Nacho, Sergio Busquets, varafyrirliði Barcelona, og Sergi Roberto auk Atlético-tvíeykisins Koke og Juanfran.

„Vandamálið er skortur á skynsamri hugsun. Þarna var bara hugsað um hagsmuni fótboltans en enginn hugsaði um stuðningsmennina. Við þurfum að laga þetta með yfirmönnum okkar. Fyrirliðarnir eru brjálaðir og þeir eru allir sammála,“ sagði Agonzo eftir fundinn.

Aðspurður hvort að verkfalli kæmi til greina sagði Agonzo: „Við vonum að þess þurfi ekki en við munum fara alla leið ef þess þarf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×