„Þetta mun lenda eins og sprengja á svæðinu,“ sagði Mari Carmen Aponte, sem var yfir utanríkismálum Bandaríkjanna í rómönsku Ameríku á síðustu mánuðum stjórnartíðar Baracks Obama, og átti þá við rómönsku Ameríku sem heild, en Bandaríkin hafa í gegnum tíðina oft stutt og jafnvel skipulagt valdarán og kollvarpanir hinna ýmsu leiðtoga á svæðinu, til að mynda í Síle, Brasilíu og Níkaragva. Eitt frægasta dæmið um afskipti Bandaríkjanna af heimshlutanum er valdaránið í Gvatemala árið 1954, sem var meðal annars skipulagt af leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA.
Þrátt fyrir að leiðtogar nágrannaríkja Venesúela séu margir hverjir sammála um að Maduro sé í auknum mæli farinn að sýna einræðistilburði þá verður, í ljósi sögunnar, að teljast ólíklegt að hvers konar valdaránstilraun studd af Bandaríkjunum hefði notið stuðnings í þessum heimshluta.

Maduro hefur lengi haldið því fram að stjórnmálamenn í Washington vilji hann úr embætti og nýjustu upplýsingar benda til þess að einhver fótur sé fyrir fullyrðingum forsetans. Þá telja margir að Maduro muni geta nýtt sér málið til þess að draga úr mótstöðu annarra þjóðarleiðtoga í rómönsku Ameríku sem margir hverjir hafa staðið sameinaðir í andstöðu sinni gegn forsetanum.
Hvíta húsið hefur neitað að svara ítarlegum spurningum um málið, en gaf út yfirlýsingu þar sem kom fram að „mikilvægt væri að eiga samtal við alla Venesúelamenn sem sýna fram á að þeir vilji lýðræði, til þess að ná fram jákvæðum breytingum í landi sem hefur þjáðst mikið undir Maduro.“