Fótbolti

Ramos: Modric átti að skilið að vinna frekar en Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Modric með verðlaunin.
Luka Modric með verðlaunin. Vísir/Getty
Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, er mjög ánægður með verðlaun UEFA fyrir besta leikmann síðasta tímabils en það vakti mikla athygli þegar Luka Modric fékk þau en ekki Cristiano Ronaldo.

Cristiano Ronaldo var allt annað en sáttur með þessa niðurstöðu og skrópaði meðal annars á verðlaunahátíðina. Báðir unnu þeir Meistaradeildina með Real Madrid síðast vor.

Sergio Ramos tjáði sig um verðlaunin og leyfði sér aðeins að skjóta á Cristiano Ronaldo sem er núna orðinn leikmaður Juventus á Ítalíu.

Jorge Mendes, umboðsmaður Cristiano Ronaldo, kallaði þetta „fáranlega og skammarlega“ niðurstöðu en Ramos er langt frá því að vera sammála.

„Það eru fáir leikmenn sem ég stoltari að hafa sem liðsfélaga en Modric," said sagði Sergio Ramos við Daily Mail.





„Hann er frábær vinur og frábær leikmaður. Hann er einn af fáum leikmönnum sem ég yrði jafnánægður með að ég eða hann myndu vinna,“ sagði Ramos og skaut kannski líka aðeins á Ronaldo.

„Kannski eru til markaðsvænari leikmenn og leikmenn með stærra nafn en Modric á þessi verðlaun skilin,“ sagði Ramos.

Luka Modric lék 43 leiki í öllum keppnum á síðustu leiktíð og var með 2 mörk og 8 stoðsendingar í þeim. Í Meistaradeildinni var hann með 1 mark og 1 stoðsendingu í 11 leikjum.

Cristiano Ronaldo var með 44 mörk og 8 stoðsendingar í 44 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu 2017-18. Hann var með 15 mörk og 3 stoðsendingar í 13 leikjum í Meistaradeildinni.

Luka Modric fylgdi eftir sigrinum í Meistaradeildinni með því að fara með króatíska landsliðinu alla leið í úrslitaleikinn og var síðan kosinn besti leikmaður keppninnar í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×