Innlent

Telur heilbrigðisráðherra fara fram úr sér

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hanna Katrín Friðriksson gagnrýnir forgangsröðun heilbrigðisyfirvalda.
Hanna Katrín Friðriksson gagnrýnir forgangsröðun heilbrigðisyfirvalda.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, telur heilbrigðisyfirvöld og heilbrigðisráðherra fara fram úr sér með því að endurskoða stofnsamning við sérfræðilækna þegar hvorki þarfagreining hefur verið gerð né stefna mótuð í heilbrigðismálum.

Þetta segir Hanna Katrín sem var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þjóðmálaþættinum Sprengisandi í morgun. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra var einnig gestur í þættinum.

Segir heilbrigðisyfirvöld byrja á öfugum enda

Verið er að vinna að stefnu í heilbrigðismálum og verður hún kynnt nú á haustdögum. Svandís segir að við eðlilegar kringumstæður væri rétt gera athugun fyrst og taka ákvarðanir í kjölfarið en það sé aftur á móti ekki tilfellið í dag að sögn Svandísar. Samningur við sérfræðilækna sé sérlega aðkallandi mál og brýnt að taka ákvarðanir þar að lútandi.

„Mér finnst pínulítið verið að ýta hlutunum í þá átt að ríkisrekni hlutinn er að fá fjármagnið til sín, er að fá verkefni til sín, áður en við vitum hvort það sé raunverulega það besta fyrir íslenskan almenning, fyrir skattgreiðendur og notendur þjónustuna og hvort það sé besta leiðin til að laða hingað að þekkingu í heilbrigðisþjónustu,“ segir Hanna Katrín sem telur heilbrigðisyfirvöld byrja á öfugum enda með því að taka ákvarðanir um sérfræðilækna áður en heilbrigðisstefnan liggi fyrir.

 

Vill stefnu sem byggir á þarfagreiningu

„Mér finnst að það sé verið að byrja á öfugum enda vegna þess að margar af þessum aðgerðum núna sem lúta að því að stemma stigu við rekstri og heilbrigðisþjónustu frá einkareknum aðilum innan þessa opinbera geira og færa yfir í ríkisrekna, mér finnst það vera hlutur sem kemur á undan áður en stefnan er komin, áður en búið er að kostnaðargreina nákvæmlega alla hluti og áður en búið er að skerpa sýnina um það hvernig við getum gert þetta best. Í öllum tilfellum er ríkið að greiða fyrir þessa þjónustu, þetta er opinber þjónusta og það er þá náttúrulega hlutverk ríkisins, sem fer með fjármuni almennings, að gera kröfur í samræmi við þessa sýn og samræma stefnu sem byggir á góðri þarfagreiningu,“ segir Hanna Katrín.

Svandís bendir á að sterkustu heilbrigðiskerfin í heiminum séu þar sem jöfnuður er mestur, þar sem opinberu heilbrigðiskerfin eru sterk við hliðina á öðrum rekstrarformum.

„En það má ekki verða þannig að við í raun og veru sveltum opinbera heilbrigðiskerfið af því einhverjir aðrir þurfi á rekstrarfé að halda. Það þarf að vera sterk heilsugæsla, sterkar heilbrigðisstofnanir og sterkur Landspítali og síðan þarf það að vera algjörlega klárt hvað það er sem kaupandinn, sem er ríkinn, vill kaupa af öðrum.“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að frá hruni hafi myndast skekkja á kostnað opinbera heilbrigðiskerfisins er varðar ráðstafanir úr ríkissjóði.Vísir/Eyþór

Skekkja á kostnað opinbera heilbrigðiskerfisins

Svandís útskýrir jafnframt að í árslok 2017 þegar verið var að bera saman breytingar á framlögum til hins opinbera annars vegar og í samninga hins vegar hafi komið í ljós að úthlutanir til heilsugæslunnar og Landspítalans hafi verið á pari við ráðstöfun úr ríkissjóði árið 2007. Fyrir því er einföld ástæða.

„Það er vegna þess að þegar við komum upp úr efnahagshruninu og þurftum að skera niður þá gátum við skorið niður það sem var ráðstafað í gegnum fjárlög en við gátum ekki skorið niður þar sem var samningsbundið. Þarna skapaðist skekkja á mjög löngum tíma sem var á kostnað opinbera heilbrigðiskerfisins.“

 

Heilbrigðismál í stóra samhenginu kjaramál

Svandís segir að í stóra samhenginu séu heilbrigðismál í raun kjaramál því þau snúist að miklu leyti um kostnaðarþátttöku og réttinn til grunnheilbrigðisþjónustu. Það sé ekki viðunandi ástand að fólk þurfi að neita sér um læknisþjónustu vegna efnahags.

„Á Íslandi er kostnaðarþátttaka sjúklinga á milli 15-17%. Það er umtalsvert hærra en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun segir að það sé rétt viðmið að miða við 15% úr eigin vasa vegna þess að annars förum við að sjá það að fólk neitir sér um heilbrigðisþjónustu eða lyfjakaup,“ segir Svandís.

Hún tekur mið af rannsóknum Rúnars Vilhjálmssonar, félagsfræðings, þegar hún bendir á hversu algengt það sé að fólk þurfi vegna fátæktar að neita sér um að leysa út lyf og fara til læknis þó það þurfi á því að halda.

„Það er eitthvað sem er algjörlega óásættanlegt og á það þurfum við að horfa þegar við erum að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og það er eitt af því sem er á mínu borði að draga úr, í skrefum, á tíma fjármálaáætlunar,“ segir Svandís.

 

Nýsköpun og tækninýjungar nauðsynlegar heilbrigðiskerfinu

Hanna Katrín segir að stefna Viðreisnar í heilbrigðismálum sé sú að nýta fjármuni ríkisins vel og bjóða góða þjónustu. Það sé aftur á móti ekki hægt ef þekkingin haldist ekki inni í landinu. Það sé nauðsynlegt heilbrigðiskerfinu að sækja þekkingu í auknum mæli inn til landsins.

„Nýsköpun og tækninýjungar og einstaklingsmiðuð þjónusta mun einkenna heilbrigðisþjónustu – ekki bara framtíðarinnar – heldur nútímans. Þetta þurfum við að gera,“ segir Hanna Katrín.

Í spilaranum hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.


Tengdar fréttir

Hafa áhyggjur af vegferð Svandísar gegn einkarekstri

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa áhyggjur af vegferð heilbrigðisráðherra þegar kemur að einkarekstri í heilbrigðisgeiranum. Ný heilbrigðisstefna ráðherrans mun koma til kasta þingsins í marsmánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×