Innlent

Lægð sem valdi meiri usla

Oddur Ævar Gunnarsson og Smári Jökull Jónsson skrifa
Haraldur Ólafsson biðlar til fólks um að tryggja lausamuni.
Haraldur Ólafsson biðlar til fólks um að tryggja lausamuni.

Fyrsta haustlægðin nálgast landið óðfluga og segir veðurfræðingur að lægðin, líkt og fyrstu lægðir hvers hausts, valdi meiri usla en þær sem komi seinna. Ástæðan sé sú að fólk festi ekki lausamuni og biðlar hann til fólks um að undirbúa sig.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Sýnar fyrr í kvöld. Haraldur Ólafsson veðurfræðingur ræddi þar hvassviðrið sem er rétt handan við hornið og mun standa fram á næstu nótt í nokkrum landshlutum. Um er að ræða tvískiptar gular veðurviðvaranir.

Sú fyrsta tók gildi nú klukkan sex á sunnan og austanverðu landinu vegna mikillar úrkomu og rigningar. Í nótt og fyrramálið fer svo að hvessa og það má segja að mesta rokið verði í hádeginu og fram að kvöldi, þegar gulu viðvaranirnar falla úr gildi um nóttina.

Fólk flaski á að undirbúa sig og festa lausamuni

„Já já þetta er úrfelli og gæti alveg dugað til þess að koma jarðvegi af stað í bröttum hlíðum, sérstaklega á sunnanverðum Austfjörðum og þar um slóðir en ég hugsa að annars staðar á landinu þar eru nú ekki miklar líkur á því að úrkoma valdi miklum vandræðum.“

Það verði hvasst seint í nótt og á morgun á suðvestanverðu landinu. „Og svo fer hann að ganga niður strax um kaffileytið og svo kemur þetta aftur upp nokkrum klukkutímum seinna á Norðausturlandi.“

Þetta er trampolínlægð, það er hætta á foktjóni?

„Ja ég held þetta sé ekki þakplötuveður en eins og þú segir hoppudýnur og hlutir sem ekki eru naglfastir gætu vel farið af stað,“ segir Haraldur. Þetta sé það sem koma skal en eitt muni skera þessa lægð úr frá öðrum.

„Það sem er sérstakt við þessa og fyrstu lægðir haustsins að þær valda yfirleitt meira usla heldur en þær sem koma seinna vegna þess að það er bara töluvert af lausum munum sem ég myndi nú hvetja fólk til þess að taka inn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×