Fótbolti

Can biðst afsökunar á að hafa gert lítið úr konum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Emre Can.
Emre Can. vísir/getty
Emre Can, leikmaður Juventus, fékk heldur betur að heyra það eftir umdeild ummæli sem hann lét falla eftir Meistaradeildarleik Juve í vikunni.

Liðsfélagi Can, Cristiano Ronaldo, var rekinn af velli í leiknum fyrir að toga í hárið á andstæðingi og Can var reiður yfir því.

„Við erum ekki konur. Við erum að reyna að spila fótbolta,“ sagði Can sem fékk í kjölfarið gusurnar úr öllum áttum þar sem hann var kallaður karlremba.

Hann hefur nú beðist afsökunar á óheppilegu orðavali.

„Allir sem þekkja mig vita hvað ég ber mikla virðingu fyrir konum. Ég ætlaði ekki vísvitandi að gera lítið úr konum eða jafnrétti á nokkurn hátt,“ sagði þýski landsliðsmaðurinn sem kom til Juve frá Liverpool í sumar.

„Ég var að reyna að verja liðsfélaga minn því mér fannst ekki rétt að reka hann af velli. Ég biðst innilega afsökunar ef orð mín hafa sært einhvern.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×