Skoðun

Allt nema lögin

Ragnar Þór Pétursson skrifar
Þegar þjóðin valdi bestu bók sem skrifuð hefði verið á íslensku valdi hún Njálu.

Einn er sá kafli Njálu sem óhætt er að fullyrða að njóti ekki sömu almannahylli. Það er langi kaflinn um lögin í landinu. Líklega er enginn kafli íslensks bókmenntaverks oftar hraðlesinn eða einfaldlega sleppt með öllu. Rauði þráðurinn í Njálu er samband manna og laga. Færa má rök fyrir því að hún sé ein risastór dæmisaga um þörfina fyrir lög til að beisla hið hverfula manneðli. Njáll mælir hin frægu orð: „Með lögum skal land byggja.“ En lög eru ekki nóg. Þeim þarf að fylgja. Þegar Gunnar hætti við utanförina var eyðileggingin óumflýjanleg.

Spakmælið um að lög einkenni gott samfélag var þekkt um Norðurlönd á ritunartíma Njálu. Höfundur Njálu var því talsmaður þekktra grundvallarviðhorfa. Upp á síðkastið hefur það orðið mér áleitin spurning hvort slík grundvallarviðhorf hafi varðveist verr hér á landi en annars staðar.

Fyrir nokkrum vikum sögðu evrópskir kollegar mínir mér að í þeirra heimalöndum dytti stjórnvöldum ekki í hug að setja lög nema ætla sér að fylgja þeim. Nýleg skýrsla Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar kemst að þeirri niðurstöðu að hér á landi hafi í raun og veru allt klikkað þegar íslenska ríkið tók að sér að tryggja öllum börnum menntun. Allt nema lögin. Þau eru býsna góð. Þeim hefur bara ekki verið fylgt – og lítið hefur verið gert í því.

Síðustu daga höfum við heyrt af illri meðferð verkafólks á Íslandi. Við þekkjum jafnframt margvísleg dæmi þess að réttur sé brotinn á fötluðum, því þótt þeim séu tryggð réttindi með lögum þá virðist hinu opinbera ekki bera nein skylda til að fjármagna þau réttindi.

Það segir kannski sitt að eftir að ég hafði, hálf niðurbrotinn, rætt þessi mál við erlenda kollega kom til mín fulltrúi, klappaði mér á öxlina og sagðist kannast við þetta allt. Það var fulltrúi Rússlands. Mér varð lítil huggun í því.




Skoðun

Sjá meira


×