Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í maí í fyrra þess efnis að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að skerða laun fimm ljósmæðra með þeim hætti sem gert var. Þær störfuðu á Landspítalanum á því tímabili sem verkfallsaðgerðir Ljósmæðrafélags Íslands stóðu yfir árið 2015.
Ríkinu beri að greiða ljósmæðrunum fjárhæðir sem nema hinni ólögmætu skerðingu ásamt dráttarvöxtum.
Ljósmæður höfðuðu mál fyrir félagsdómi haustið 2015 vegna málsins en dómurinn sýknaði ríkið. Var ríkinu í framhaldi stefnt með stuðningi Bandalags háskólamanna og vannst málið í maí í fyrra. Ríkið áfrýjaði dómnum sem nú hefur verið staðfestur í Hæstarétti.
Þá þarf ríkið að greiða ljósmæðrunum fimm hverri um sig 200 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
