Hæstiréttur Frakkland kvað klukkan 14 upp dóm í PIP-sílikonmálinu svokallaða. 204 íslenskar konur eru hluti af málsókn níu þúsund kvenna á hendur þýska eftirlitsfyrirtækinu TÜV Rheinland. Málið hefur verið rekið í Frakklandi undanfarin þrjú ár en konurnar krefjast skaðabóta fyrir heilsutjón sem þær telja púðana hafa valdið sér.
Málið er nokkuð flókið þar sem um fleiri en eina hópmálsókn er að ræða. Íslensku konurnar eru hluti af málsókn númer tvö en málsókn númer eitt er sú sem er komin lengst í kerfinu og Hæstiréttur fjallaði um í dag. Málsókn númer eitt yrði fordæmisgefandi fyrir málsókn íslensku kvennanna.
Þýska eftirlitsfyrirtækið var dæmt ábyrgt fyrir því að brjóstapúðarnir, sem notaðir voru um allan heim, voru gallaðir. Fyrirtækið var sagt hafa vanrækt skyldur sínar um eftirlit og árvekni með því að hafa samþykkt að PIP-púðarnir uppfylltu evrópskar reglugerðir þrátt fyrir að þeir innihéldu iðnaðarsílíkon.
Áfrýjunardómstóll í Aix-en-Provence í Frakklandi, millidómstig, komst að öndverði niðurstöðu þegar málið var tekið fyrir þar. Var niðurstaðan sú að þýskai eftirlitsaðilinn væri ekki skaðabótaskyldur. Fyrir vikið fór málið á þriðja dómstig, Hæstarétt. Niðurstaðan þar var að staðfesta ekki niðurstöðu áfrýjunardómstólsins heldur senda málið aftur til meðferðar hjá áfrýjunardómstól.

„Niðurstaðan, sem mér er sagt að hafa verið mjög afgerandi, var sú að áfrýjunardómstóllinn í París á að taka málið til meðferðar,“ segir Saga Ýrr í samtali við Vísi. Hún var viðstödd dómsuppkvaðninguna í dag ásamt lögmönnum frá fleiri löndum.
„Þetta er í raun mesti sigur sem hægt var að vinna á þessu stigi máls og mun hafa áhrif á þær íslensku konur sem eru aðilar að hópmálsókn nr. 2. Þá var á sama tíma tekin ákvörðun um að bætt verður við hópmálsókn nr. 4 og mun þar með opnast fyrir þann möguleika að fleiri konur geti sótt sér skaðabætur sem og íslenska ríkið. En eins og upplýst hefur verið um í fjölmiðlum hefur íslenska ríkið ekki enn látið reyna á rétt sinn, því miður.“
Talið hefur verið að um 300 þúsund konur í 65 löndum, þar á meðal Íslandi, hafi notað gallaða brjóstapúða frá PIP. Mikill fjöldi hefur látið fjarlægja þá eftir að í ljós kom að iðnaðarsílíkon var notað við framleiðslu þeirra.
Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp árið 2011 en eigandi PIP var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir svik árið 2013.