Innlent

„Ég held að ökumaðurinn kunni einfaldlega ekki mannasiði“

Atli Ísleifsson skrifar
Einhver hafði skilið eftir skilaboð til ökumanns bílsins.
Einhver hafði skilið eftir skilaboð til ökumanns bílsins. Mynd/Teitur Atlason
Bíll, sem lagður var ólöglega á bílaplani Arion banka í Borgartúni, olli miklu umferðaröngþveiti í hádeginu í dag. Teitur Atlason, sem starfar á svæðinu, segir að atvik sem þetta sé nær daglegur viðburður á þessu svæði.

„Ég vinn þarna í nágrenninu og verð var við ýmislegt en þetta er með því sérkennilegra. Þetta var altalað í Borgartúninu og ég var ekki sá eini sem hristi hausinn yfir þessu. Það eru mörg hundruð manns sem vinna á þessum bletti og þetta er daglegur hlutur, svona vitleysa.

Ég held að ökumaðurinn sé ekki eins og Láki jarðálfur sem ætlaði að vera sérstaklega vondur í dag. Ég held að ökumaðurinn kunni einfaldlega ekki mannasiði,“ segir Teitur í samtali við Vísi.

Birti myndband

Hann vakti athygli á málinu með því að birt myndband á YouTube af þvögunni sem myndaðist vegna bílsins. Auk þess birti hann myndir af bílnum og skilaboðum sem einhver hafði skilið eftir á framrúðunni í Facebook-grúppunni vinsælu Verst lagði bíl[l]inn.

Á miðanum sem skilinn var eftir mátti sjá skilaboðin: „ÞÚ LEGGUR EINS OG FÁVITI! AF ÞÍNUM VÖLDUM VAR/ER HÉR UMFERÐARÖNGÞVEITI!“

Sjá má myndbandið að neðan sem og myndirnar sem Teitur tók.

Teitur Atlason
Teitur Atlason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×