Innlent

Jón Steinar fékk ekki bætur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttarlögmaður, á ekki rétt á greiðslu úr málskostnaðartryggingu fjölskyldutryggingar sinnar vegna dómsmáls sem hann höfðaði til ógildingar áminningar sem hann hlaut hjá úrskurðarnefnd lögmanna. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum (ÚRVá).

Í fyrra var Jón Steinar áminntur vegna ummæla sem hann lét falla í tölvupóstssamskiptum við Ingimund Einarsson, þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómarinn fyrrverandi var ósáttur við synjun dómstjórans á beiðni um flýtimeðferð og lét orð falla sem þeim síðarnefnda mislíkaði. Kvartaði Ingimundur til úrskurðarnefndar lögmannafélagsins sem áminnti Jón Steinar vegna brots á siðareglum. Jón Steinar höfðaði dómsmál til ógildingar á úrskurðinum en því var hafnað í maí. Málskostnaður var látinn niður falla.

Í tengslum við rekstur dómsmálsins óskaði Jón Steinar eftir því að kostnaður við það yrði greiddur af tryggingafélagi sínu en í fjölskyldutryggingu hans var innifalin málskostnaðartrygging. Félagið hafnaði greiðsluskyldu þar sem tryggingin tæki ekki til ágreinings sem væri í tengslum við atvinnu hins vátryggða. Jón Steinar taldi á móti að ummælin hefðu fallið eftir að lögfræðilegum erindum við dómstjórann var lokið og að þau tengdust ekki vinnu hans heldur tjáningarfrelsi einstaklinga.

ÚRVá féllst á rök félagsins og sagði að ummælin væru alfarið komin til vegna lögmannsstarfa. Því ætti Jón Steinar ekki rétt á bótum úr málskostnaðartryggingunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×