Innlent

Einungis 89 starfandi talmeinafræðingar hérlendis

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Málþroskaröskun lýsir sér á þann veg að börn eiga erfitt með að tileinka sér mál á dæmigerðan hátt
Málþroskaröskun lýsir sér á þann veg að börn eiga erfitt með að tileinka sér mál á dæmigerðan hátt Vísir/Vilhelm
Einungis 89 talmeinafræðingar starfa hér á landi, þrátt fyrir að tíðni barna með málþroskaröskun sé nokkuð há. Þá er minnihluti þeirra talmeinafræðinga starfandi í skólakerfinu og enginn starfandi á þroska og hegðunarstöð.

Alþjóðadagur málþroskaraskana var haldinn í gær til að vekja athygli á stöðu og þörfum barna og ungmenna með röskunina. Formaður félags talmeinafræðinga segir að mikil þekking búi að baki röskuninni en þrátt fyrir það sé fólk ekki nægilega upplýst um hana.

„Við vitum alveg helling. Þetta er mjög vel rannsakað en ekki nægilega þekkt. ADHD og einhverfa eru mun þekktari raskanir. Þó eru 7% barna með málþroskaraskanir,“ segir Tinna Sigurðardóttir, formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi.

Málþroskaröskun lýsir sér á þann veg að börn eiga erfitt með að tileinka sér mál á dæmigerðan hátt. Skilningur á málinu er slakur og börn með röskunina eigi erfitt með að ná tökum á lestri og ritun.

„Tíðni málþroskaraskana er talin vera 7%. Mun algengari en einhverfa sem er 2,7% miðað við íslenskar tölur. Ef við setjum þessar tölur í samhengi þá eru þetta 3164 börn á landinu sem eru með málþroskaröskun. Það eru 89 starfandi talmeinafræðingar á Íslandi en minnihluti þar er starfandi í skólanum, en að mati Tinnu þyrftu þeir að vera fleiri. Þá er enginn talmeinafræðingur starfandi á Þroska- og hegðunarstöð,“ segir Tinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×