Viðskipti innlent

Frekari vaxtahækkanir í kortunum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Seðlabankinn segir aukna verðbólgu hafa lækkað raunvexti bankans umfram það sem æskilegt sé.
Seðlabankinn segir aukna verðbólgu hafa lækkað raunvexti bankans umfram það sem æskilegt sé. Fréttablaðið/Stefán
Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir það ef til vill hafa komið á óvart að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands skuli hafa hækkað stýrivexti bankans í stað þess að hinkra og sjá hvort verðbólguvæntingar færu að gefa sig. Bankinn hafi enda nýverið létt á innflæðishöftunum sem gæti stutt við krónuna og þar með ýtt væntingunum aðeins niður á við.

„Á móti kemur að bankinn er ef til vill að falla á tíma með vaxtahækkanir þar sem verðbólguhorfur fara nú hratt versnandi,“ segir hún.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, telur vaxtahækkunina hafa verið ótímabæra af þeirri einföldu ástæðu að staðan í efnahagslífinu sé mjög viðkvæm. Hækkunin sé aðeins til þess fallin að hraða kólnun hagkerfisins.

Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka
Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að hækka vexti bankans um 0,25 prósentustig en í yfirlýsingu nefndarinnar sagði að aukin verðbólga og hærri verðbólguvæntingar hefðu lækkað raunvexti Seðlabankans umfram það sem æskilegt væri.

Kristrún segir vaxtahækkunina hafa komið nokkuð á óvart að því leyti að bankinn hafi verið nýbúinn að létta á innflæðishöftunum.

„Ein af forsendunum fyrir því var minnkandi vaxtamunur og því er áhugavert að bankinn stígi nú strax það skref að hækka vexti. Það mætti þó segja að bankinn sé að einhverju leyti á eftir kúrfunni þegar kemur að vaxtahækkunum.

Raunvaxtastig er orðið lágt og fer lækkandi með aukinni verðbólgu, auk þess sem spennan í hagkerfinu mælist meiri en þeir upprunalega héldu. Bankinn á að einhverju leyti að vera framsýnn og hafa þegar brugðist við því að verðbólgan sé að fara upp í rúmlega þrjú prósent í þessum mánuði,“ nefnir Kristrún.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins
Ásdís segir peningastefnunefnd hafa rökstutt hærri vexti með vísan til meðal annars veikingar krónunnar og hækkandi verðbólguvæntinga.

„Það þarf hins vegar að hafa í huga að gengisveikingu krónunnar síðustu vikurnar má meðal annars rekja til þeirrar óvissu sem er uppi á vinnumarkaði og áhyggna fjárfesta og annarra af efnahagshorfum,“ nefnir Ásdís og bætir einnig við að Seðlabankinn hafi sjálfur – með stífum innflæðishöftum – ýtt undir veikingu krónunnar.

Aðspurð segir Kristrún ekki ólíklegt að fleiri vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið, hvort sem það gerist í næsta mánuði eða eftir áramót.

„Markaðurinn er svartsýnn sem sýnir sig í því að hann hefur þegar verðlagt rúmlega hundrað punkta hækkun á vöxtum á næsta eina og hálfa árinu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×