Viðskipti innlent

Svikarar nýttu sér veik­leika hjá Reikni­stofu bankanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reiknistofabankanna stendur við Dalveg 30 í Kópavogi.
Reiknistofabankanna stendur við Dalveg 30 í Kópavogi. RB

Reiknistofa bankanna segir nokkra einstaklinga hafa millifært fjármuni af eigin reikningum án þess að inneign væri til staðar. Það hafi þeir getað vegna tímabundins veikleika sem skapaðist við uppfærslu á kerfum RB.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá RB. RÚV segir að mönnum hafi tekist að svíkja hundruð milljónir króna út úr banka hér á landi. Lögregla hafi farið fram á gæsluvarðhald yfir fimm mönnum en kröfunni verið hafnað. Þeir sæta aftur á móti farbanni.

„Reiknistofa bankanna vill upplýsa að við uppfærslu á kerfum hjá RB nýverið skapaðist tímabundinn veikleiki sem varð til þess að við tilteknar aðstæður millifærðu nokkrir einstaklingar fjármuni af eigin reikningum án þess að inneign væri til staðar. Um leið og svikin uppgötvuðust var lokað fyrir þennan möguleika í samstarfi við viðskiptavini okkar,“ segir í tilkynningunni sem Sigurður Örn Hallgrímsson, forstöðumaður þjónustustýringar og markaðsmála, sendir fjölmiðlum.

„Öryggismál eru efst í forgangsröðinni hjá okkur og við leggjum mikið upp úr því að koma í veg fyrir að hægt sé að misnota kerfin. Í þessu tilfelli náðist með illum ásetningi að misnota þetta tímabundna ástand í kerfinu sem varð til við uppfærslu. Þetta er enn og aftur áminning um mikilvægi öryggismála sem eru í stöðugri endurskoðun og endurmati hjá okkur.“

Málið sé komið í viðeigandi farveg en tekið er fram að viðskiptavinir bankanna hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×