Fótbolti

Allt í hnút í riðli Liverpool | Öll úrslit dagsins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Neymar í baráttunni á Ítalíu í kvöld.
Neymar í baráttunni á Ítalíu í kvöld. vísir/getty
Það er allt í hnút í C-riðlinum í Meistaradeild Evrópu en í riðlinum eru Liverpool, PSG, Napoli og Rauða stjarnan. Tvær umferðir eru eftir af riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Liverpool tapaði fyrr í dag mikilvægum stigum er liðið tapaði 2-0 fyrir Rauðu stjörnunni á útivelli og í kvöld gerðu svo Napoli og PSG 1-1 jafntefli á Ítalíu.

Juan Bernat kom PSG yfir undir lok fyrri hálfleiks en á 63. mínútu jafnaði Lorenzo Insigne af vítapunktinum eftir að Gianluigi Buffon braut á Jose Maria Callejon.

Eftir fjórðu umferðina er Liverpool á toppnum með sex stig, Napoli er í öðru sætinu með sex stig, PSG er í þriðja sætinu með fimm stig og Rauða stjarnan í fjórða sætinu með fjögur stig. Rosaleg spenna.

Atletico Madrid náði að hefna ófaranna gegn Dortmund en Madrídingar voru flengdir í Þýskalandi fyrir tveimur vikum er Dortmund vann 4-0. Í kvöld vann Atletico 2-0 sigur í leik liðanna.

Saul Niguez og Antoine Griezmann skoruðu mörk Atletico en liðin eru komin langleiðina í 16-liða úrslitin. Þau eru bæði með níu stig, Club Brugge er með fjögur og Mónakó eitt.

Í D-riðlinum vann Porto 4-1 sigur á Lokamotiv Moskva í rigningunni í Portúgal og í Þýskalandi vann Schalke 2-0 sigur á tyrkneska liðinu Galatasaray. Porto er með tíu stig, Schalke átta, Galatasaray fjögur en Lokomotiv ekkert.

Úrslit dagsins:

A-riðill:

Mónakó - Club Brugge 0-4

Atletico Madrid - Dortmund 2-0

B-riðill:

Inter - Barcelona 1-1

Tottenham - PSV 2-1

C-riðill:

Rauða stjarnan - Liverpool 2-0

Napoli - PSG 1-1

D-riðill:

Porto - Lokamotiv Moskva 4-1

Schalke - Galatasaray 2-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×