Luis Suarez segir eðlilegt að Barcelona leiti að arftaka hans.
Úrúgvæinn verður 32 ára gamall í janúar og því fer að styttast í að hann þurfi að leita á önnur mið, eða jafnvel hætti í fótbolta, vegna aldurs.
Suarez og Munir El Haddadi eru einu hreinræktuðu framherjarnir í liði Barcelona og því eru menn innan félagsins farnir að leita að nýjum framherja.
„Það er eðlilegt,“ sagði Suarez við úrúgvæska miðilinn Sport 890.
„Kominn á þennan aldur og eftir að hafa þurft að þola mikla gagnrýni á ferlinum þá finnst mér ekkert skrítið að Barcelona sé að leita að nýjum framherja.“
„Félagið þarf að hugsa til framtíðar.“
Suarez hefur skorað yfir 150 mörk á fjórum árum hjá Barcelona. Hann hefur fengið nokkra gagnrýni í upphafi tímabilsins en svaraði henni inni á vellinum um síðustu helgi þegar hann skoraði þrennu í stórleiknum við Real Madrid.
Suarez: Eðlilegt að Barca leiti að arftaka mínum
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
