Fótbolti

„Menn munu kalla City vonbrigði ef liðið vinnur ekki Meistaradeildina“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guardiola á æfingu City
Guardiola á æfingu City vísir/getty
Tímabilið hjá Manchester City verður vonbrigði í margra augum ef liðið vinnur ekki Meistaradeild Evrópu segir knattspyrnustjórinn Pep Guardiola.

City varð Englandsmeistari í vor og bætti mörg met í leiðinni, meðal annars mesta stigafjölda sem náðst hefur í deildinni. Liðið er á góðri leið með að verja titil sinn, á toppi deildarinnar og ósigrað eftir 13 umferðir.

Í kvöld mætir liðið Lyon í Frakklandi í næst síðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Stig í þeim leik tryggir City áfram í 16-liða úrslitin, sigur tryggir þeim toppsæti riðilsins.

„Þeir sem að elska okkur ekki, þeir sem horfa mikið í peningana, þeir munu segja tímabilið hjá okkur vonbrigði ef við vinnum ekki Meistaradeildina,“ sagði Guardiola.

„Hinir, sérstaklega stuðningsmenn okkar, munu sjá að það er ánægjulegt að horfa á leikina okkar og verða ánægð með hvað strákarnir eru að gera. Ég er nokkuð viss um að það fólk sjái ekki eftir neinu hjá liðinu síðustu 12, 15 mánuði.“

„Það er mesta hrós sem lið getur fengið.“

„En við viljum komast áfram í Meistaradeildinni, halda áfram á sama róli í úrvalsdeildinni og mæta í útsláttarkeppnina eftir áramót með alla heila og tilbúna til þess að gera það sem þarf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×