Prestafélag Íslands mótmælir harðlega áætlunum um frystingu launa kirkjunnar manna sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði í kjararáðsfrumvarpi. Frumvarpið er nú til skoðunar á Alþingi og fjallar um afleiðingar þess að leggja niður kjararáð. RÚV greinir frá.
Í umræddu bráðabirgðaákvæði segir að laun starfsmanna þjóðkirkjunnar skuli ekki taka breytingum fyrr en samkomulag næst við þjóðkirkjuna um breytt fyrirkomulag á framlagi ríkisins til kirkjunnar. Þá gilda „almenn og önnur starfskjör“ sem fram koma í ákvörðunarorði kjararáðs frá 17. desember síðastliðnum þar til samkomulag hefur náðst.
Sjá einnig: Vilja að kjararáð verði lagt niður
Í yfirlýsingu sem Prestafélag Íslands sendi nefndasviði Alþingis, og RÚV birti á vef sínum, er þessu mótmælt.
„Stjórn Prestafélags Íslands mótmælir harðlega þeim áætlunum að „frysta“ laun biskupa, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar um óskilgreindan tíma. Eðlilegt er að þeir embættismenn sem hér um ræðir fái sömu meðferð og þeir aðrir sem undir kjararáð heyrðu og að laun þeirra verði endurskoðuð árlega til hækkunar eins og hjá öðrum.“
Ekkert liggi jafnframt fyrir um væntanlega endurskoðun samninga um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Því sé óásættanlegt að „tengja saman og skilyrða“ slíka endurskoðun samninga og launagreiðslur kirkjunnar manna. Með þessu segir Prestafélagið að vegið sé harkalega að þeirri réttarvernd sem núverandi samningar tryggja.
„Stjórn PÍ krefst þess að ákvæði þessu til bráðabirgða verði breytt án tafar og að embættismenn þjóðkirkjunnar standi jafnfætis öðrum sem undir kjararáð heyrðu.“
Ekki náðist í Ninnu Sif Svavarsdóttur, formann Prestafélags Íslands, við vinnslu þessarar fréttar.

