Sport

Anton Sveinn setti tvö Íslandsmet í sama sundinu í morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Sveinn McKee.
Anton Sveinn McKee. Mynd/Fésbókarsíða SSÍ
SH-ingurinn Anton Sveinn McKee byrjaði vel á HM í 25 metra laug í Hangzhou í Kína en hann tryggði sér sæti í milliriðli í 100 metra bringusundi í morgun.

Anton Sveinn er fyrsti Íslendingurinn til að keppa á mótinu og hann var í Íslandsmetaham strax í fyrsta sundi.

Anton synti á þriðju braut í fimmta riðli og kom í mark á tímanum 57,57 sekúndum sem er Íslandsmet en gamla Íslandsmetið átti hann sjálfur og var það 58,66 sekúndur frá því árið 2017 í Berlín.

Anton gerði gott betur því hann setti einnig Íslandsmet í 50 metra bringusundi í leiðinni því millitíminn hans í þessu 100 metra bringusundi var upp á 26,98 sekúndur.

Það met átti hann ekki sjálfur því gamla metið var í eigu Jakobs Jóhanns Sveinssonar en Jakob syndi 50 metra bringusund á 27,37 sekúndum fyrir níu árum síðan.

Með þessu sundi synti Anton Sveinn sig inn í milliriðlana sem fara fram í hádeginu að íslenskum tíma. Anton varð tólfti í undanrásum en sextán bestu sundmennirnir úr riðlakeppninni komust inn í milliriðlana.

„Anton Sveinn hefur verið í góðri framför undanfarið, eftir stutta hvíld frá sundi í kjölfar ÓL 2016 hóf hann aftur æfingar með það að markmiði að ná lengra. Aðstæður hans eru töluvert breyttar frá því hann lauk námi í Bandaríkjunum, þar sem vinnan hans kallar á töluverð ferðalög milli staða í Bandaríkjunum. Æfingaplanið hans er því sniðið að því og Anton er mjög agaður í öllum undirbúningi fyrir mót eins og HM,“ segir í frétt um Íslandsmetasund Antons á heimasíðu Sundsambands Íslands.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×