Borholan sem um ræðir er um 110 metra djúp og er ljóst að einhver hafði borað á staðnum leit að vatni, en án leyfis frá yfirvöldum. Holunni hafði ekki verið lokað almennilega og féll drengurinn niður í hana fyrir framan föður sinn þar sem þeir voru á gangi.
Útför drengsins fór fram í gær og var hann jarðsettur við hlið bróður síns, Oliver, sem lést fyrir þremur árum eftir hjartaáfall.
„Staða líksins bendir til að drengurinn hafi hrapað beint um 71 metra, en hann fannst á því dýpi,“ segir Alfonso Rodríguez Gómez de Celis, talsmaður héraðsstjórnarinnar í Andalúsíu.

Alvarlegir höfuðáverkar
Líkið var krufið áður en útförin fór fram og sýna bráðabirgðaniðurstöður að alvarlegir höfuðáverkar hafi verið á líkinu. Telja læknar að hann hafi látist á fyrsta sólarhringnum eftir að hafa fallið í holuna. Talsvert magn jarðvegs var að finna ofan á líkinu og er ljóst að molnað hafði úr veggjum borholunnar.Til að komast að Julen grófu björgunarmenn holu, samhliða borholunni. Þegar komið var niður á það dýpi sem talið var að Julen væri að finna, var borað þvert í átt að borholunni þar til að björgunarmenn komust að drengnum.
Búið er að loka fyrir holu björgunarliðsins með sex hundruð kílóa stálplötu og stendur jafnframt til að loka fyrir borholuna.