Veðurstofan spáir verulega kólnandi veðri um helgina og gæti frostið náð allt að fimmtán stigum inn til landsins. Éljum er spáð norðaustanlands en annars staðar björtu veðri.
Norðlæg eða breytileg átt verður á morgun, 3-13 metrar á sekúndu og verður hvassast austast á landinu. Frostið verður á bilinu eitt til fimmtán stig.
Í höfuðborginni verður frostið á bilinu tvö til níu stig með hægviðri og léttskýjuðu.
Á sunnudag er spáð hægri breytilegri átt, víða þurru og björtu veðri. Frost verður áfram allt að fimmtán stig. Seinnipartinn er gert ráð fyrir suðaustan 8-15 metrum á sekúndu suðvestan- og vestanlands. Þar á að þykkna upp og frost að minnka með snjókomu um kvöldið.

